Þórunn Ósk Marinósdóttir er leiðari víóludeildar Sinfóníuhljómsveitar Íslands og víólukennari við Tónlistarskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands. Hún stundaði víólunám við Konunglega tónlistarháskólann í Brussel hjá Ervin Schiffer.
Þórunn spilar mikið af kammertónlist og hefur einnig komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur, Prima la Musica í Belgíu og Sumida Triphony Hall Orchestra í Tokyo.
Plötuútgáfan Smekkleysa hefur gefið út upptökur með leik Þórunnar af verkum Hafliða Hallgrímssonar Ombra, konsert fyrir víólu og strengjasveit og Dagbókarbrot fyrir víólu og píanó. Einnig hefur hún leikið inn á fjölda geisladiska með kammerverkum, oftast undir merkjum Kammersveitar Reykjavíkur.