займ на картукредиты онлайн

Kæru tónleikagestir!

SigurgeirVerið hjartanlega velkomin á Reykholtshátíð. Hátíðin er nú haldin í 17. sinn og hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem einn af fastapunktunum í flóru hins íslenska tónlistarsumars. Ákveðin kaflaskil verða í ár en Auður Hafsteinsdóttir fiðluleikari hefur látið af störfum sem listrænn stjórnandi Reykholtshátíðar og undirritaður tekið við. Ég þakka Auði kærlega fyrir hennar frábæru störf og óeigingjarna framlag til hátíðarinnar undanfarin ár.

Dagskráin í ár er að vanda afar fjölbreytt og spannar allt frá endurreisnartónlist 16. aldar yfir í strengjakvartettinn Frá draumi til draums eftir Jón Nordal frá árinu 1996. Sérstakt tilhlökkunarefni eru opnunartónleikar hátíðarinnar föstudaginn 26. júlí en þá mun hinn frábæri enski kór Bristol Bach Choir stíga á svið með efnisskrá þar sem ensk kórtónlist verður í forgrunni.

Gissur Páll Gissurarson ásamt Steinunni Birnu Ragnarsdóttur heldur svo söngtónleika á laugardeginum kl. 15 þar sem þau munu flytja ítölsk og íslensk lög, sum hver í glænýjum útsetningum eftir Þórð Magnússon. Á laugardagskvöldið heiðrar Reykholtshátíð 100 ára afmæli Benjamin Britten með flutningi á sjaldheyrðu verki eftir þennan mikla meistara. Fiðlusónata nr. 1 eftir Beethoven fær næst að hljóma og enda svo tónleikarnir á Goldberg tilbrigðunum eftir Bach, einu magnaðasta verki vestrænnar tónlistarsögu.

Lokatónleikar hátíðarinnar fara svo fram á sunnudeginum kl. 16. Þar fá áheyrendur að kynnast hinu íhugla og djúpa tónmáli Jóns Nordal í strengjakvartett frá 1996. Gissur Páll stígur á stokk og syngur nokkrar af þekktustu aríum Verdi í tilefni af 200 ára afmæli hans. Reykholtshátíð lýkur svo á einum af gullmolum kammertónbókmenntanna, píanókvartettinum í g-moll op. 25 eftir Brahms.

Sjáumst í Reykholti í sumar!

Sigurgeir Agnarsson,
listrænn stjórnandi

 

Flytjendur2013 

Samstarfsaðilar - Affiliates:
menntamalaraduneytid snorrastofa soknaraaetlun_vesturlands

 


Sígild tónlist í sögulegu umhverfi - Classical Music in Historical Surroundings