Kæru hátíðargestir!
Verið hjartanlega velkomin á Reykholtshátíð. Hátíðin hefur löngu skipað sér sinn fasta sess í tónleikalandslaginu á Íslandi og telst nú til einna af elstu tónlistarhátíðum á landinu. Að venju ber Reykholtshátíð upp á síðustu helgina í júlí sem er jafnframt vígsluafmæli Reykholtskirkju. Dagskrár hátíðarinnar samanstendur ekki einungis af tónleikum en einnig verður fyrirlestur á vegum Snorrastofu og jafnframt hátíðarguðþjónusta á sunnudeginum. Það eru því margar ástæður til að koma í Reykholt þessa helgi og njóta þess sem í boði er í óviðjafnanlegu umhverfi Borgarfjarðar!
Reykholtshátíð hefst á föstudagkvöldinu með tónleikum Karlakórsins Heimis úr Skagafirði. Heimir hefur lengi verið í fararbroddi íslenskra karlakóra og því sérstakt tilhlökkunarefni að bjóða þá velkomna á Reykholtshátíð. Á þessum tónleikum mun kórinn flytja úrval íslenskra og erlendra laga sem hafa fylgt kórnum í gegnum tíðina. Stjórnandi kórsins er Stefán R. Gíslason en sérstakur gestur á tónleikunum verður Þóra Einarsdóttir sópran.
Þóra Einarsdóttir sópran og Steinunn Birna Ragnarsdóttir píanóleikari halda síðdegistónleika á laugardeginum undir yfirskriftinni „Báran“. Á þessum tónleikum verður farið aftur til upphafs tónleikahefðar á Íslandi um aldamótin 1900, en þá var Báran við Tjörnina helsti tónleikastaður Reykvíkinga. Fyrri hlutinn er tileinkaður Grieg, Sibelius og Rangstöm, en það var ekki síst frá Skandinavíu sem straumar tónleikahefðar bárust til Íslands. Seinni hlutinn er tileinkaður þeim íslensku tónskáldum er sömdu fyrstu einsöngslögin sem voru listræn sönglög.
Lágfiðlan verður í aðalhlutverki á laugardagskvöldið í Reykholti en sérstakur gestur hátíðarinnar í ár er finnski lágfiðluleikarinn Atte Kilpeläinen. Atte er einn af fremstu lágfiðluleikurum Finnlands og hefur víða komið fram, bæði sem einleikari og kammermúsíkant. Fyrir hlé leikur Atte verk m.a. eftir Robert Schumann og Arvo Pärt en eftir hlé hljómar hið sjaldheyrða en stórkostlega Divertimento í Es dúr fyrir strengjatríó eftir Mozart. Verkið er í 6 köflum og eina verkið sem Mozart samdi fyrir þessa hljóðfærasamsetningu og af mörgum talið eitt af allra bestu kammerverkum hans.
Það kennir ýmissa grasa á fjölbreyttum lokatónleikum Reykholtshátíðar. Fyrst hljóma útsetningar Herbert Ágústsson fyrir fiðlu og selló á íslenskum þjóðlögum og þar á eftir fagnar Reykholtshátíð 150 ára afmæli Sibelius með flutningi á strengjatríói hans í g-moll. Reykholtshátíð heldur áfram samstarfi sínu við Þórð Magnússon tónskáld sem útsetur 3 íslensk dægurlög fyrir píanótríó og söngrödd. Tónleikunum lýkur svo á einni af perlum kammertónbókmenntanna, píanókvartettnum í Es-dúr op. 47 eftir Schumann.
Allir ættu að finna sér eitthvað við hæfi á Reykholtshátíð í sumar. Njótið vel!
Sigurgeir Agnarsson
listrænn stjórnandi Reykholtshátíðar