займ на картукредиты онлайн

Kæru tónleikagestir!

SigurgeirVerið hjartanlega velkomin á Reykholtshátíð. Hátíðin í ár er sú 18. í röðinni og er það út af fyrir sig einstakt í ljósi þess ótrygga starfsumhverfis sem hátíðir af þessum toga búa við. Ef ekki væri fyrir óbilandi trú og starf fyrrverandi listrænna stjórnenda sem og flytjenda, ásamt dyggilegum stuðningi heimamanna hér í Reykholti væri saga Reykholtshátíðar hvorki jafn löng né glæsileg eins og raun ber vitni. En umfram allt er það þó ykkur, tónleikagestum, að þakka að hátíðin hefur dafnað og blómstrað, því án ykkar hefðu árin aldrei orðið jafn mörg.

Það verður óvenju mikið um að vera í Reykholti þessa hátíðarhelgi, en auk Reykholtshátíðar mun Snorrastofa standa fyrir veglegri dagskrá í tengslum við 200 ára afmæli norsku stjórnarskrárinnar. Hátíðin mun að venju hefjast á opnunartónleikum á föstudagskvöldinu. Þar verða flutt verk eftir tvo af risum 20. aldarinnar; sónata fyrir 2 fiðlur eftir Prokofiev og strengjakvartett nr. 7 eftir Shostakovitch. Tónleikunum lýkur á hinum magnaða píanókvartett eftir lettneska tónskáldið Peteris Vasks. Vasks stendur um þessar mundir á hátindi frægðar sinnar sem eitt dáðasta tónskáld sinnar samtíðar. Píanókvartettinn er gríðarlega áhrifamikil tónsmíð með tónmáli sem er öllum aðgengilegt, óháð aldri hlustenda eða kynnum þeirra af nýrri tónlist.

Á laugardeginum  kl. 17 munu Steinunn Birna Ragnarsdóttir píanóleikari og Hanna Dóra Sturludóttir söngkona stíga á stokk og flytja dagskrá undir yfirskriftinni „Þjóðlegar ástríður”. Þar mun kenna ýmissa grasa auk glænýrra útsetninga eftir Þórð Magnússon á íslenskum dægurlögum. Seinna um kvöldið kl. 20 verða svo kammertónleikar þar sem þjóðleg rómantík og ástríða mun svífa yfir vötnum með verkum m.a. eftir Grieg og Smetana.

Á lokatónleikum Reykholtshátíðar á sunnudeginum kl. 16 verður frumflutt nýtt verk eftir Huga Guðmundsson tónskáld. Hróður Huga hefur borist víða undanfarin ár og hefur hann m.a. tvisvar hlotið íslensku tónlistarverðlaunin auk þess að hafa verið tilnefndur til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2014. Verkið er samið fyrir píanókvintett og söngrödd við texta úr Hávamálum. Auk verksins eftir Huga verður flutt útsetning af tríósónötu eftir Handel fyrir 2 selló og píanó. Reykholtshátíð lýkur á hinum tilfinningaríka píanókvintett eftir César Franck, einstöku verki sem ekki ætti að láta neinn ósnortinn.

Sjáumst í Reykholti í sumar!

Sigurgeir Agnarsson
listrænn stjórnandi Reykholtshátiðar 

Samstarfsaðilar - Affiliates:
menntamalaraduneytid snorrastofa soknaraaetlun_vesturlands

 


Sígild tónlist í sögulegu umhverfi - Classical Music in Historical Surroundings