займ на картукредиты онлайн
Umsögn sem var birt í Morgunblaðinu 31. júlí 2002

Reisn yfir Reykholtshátíð

SÁ hópur sem sækir Reykholtshátíð ár eftir ár fer stækkandi. Sennilega eru það orðnir á milli 25 og 30 manns sem koma alltaf í Reykholt þegar hátíðin þar gengur í garð, og sækja alla tónleikana. Þá eru þeir ótaldir sem koma á eina eða fleiri tónleika; - sumarbústaðafólk, ferðamenn, heimamenn og þeir sem telja það ekki eftir sér að brenna úr bænum og upp í sveit fyrir góða tónleika. Það sem í boði er í Reykholti er líka þess eðlis að engan þarf að undra að þeir sem á annað borð ánetjast skuli sýna slíka tryggð. Góð tónlist í flutningi okkar bestu tónlistarmanna og frábærra erlendra gesta eru aðalsmerki hátíðarinnar; efnisskrá tónleikanna er fjölbreytt. Komin er hefð á að á fyrstu tónleikum á föstudagskvöldi séu leikin verk eins tónskálds; - í fyrra var það Beethoven, í ár Mozart. Fyrri tónleikar laugardagsins eru ljóðatónleikar, en á laugardagskvöldi er efnisskrá með "konfektmolum" úr ýmsum áttum - smáverk fyrir blandaða samsetningu hljóðfæra; verk sem fólk þekkir og kannast við, en heyrir kannski ekki svo oft á tónleikum. Á sunnudagstónleikum er jafnan boðið upp á stærri kammerverk. Íslenskir tónlistarmenn á hátíðinni nú voru Sif Tulinius og Auður Hafsteinsdóttir fiðluleikarar, Þórunn Ósk Marinósdóttir víóluleikari, Bryndís Halla Gylfadóttir sellóleikari, Hávarður Tryggvason kontrabassaleikari og Steinunn Birna Ragnarsdóttir píanóleikari sem jafnframt er listrænn stjórnandi hátíðarinnar. Erlendir gestir að þessu sinni voru ekki af lakara tagi; finnski baritónsöngvarinn Petteri Salomaa og sænski píanóleikarinn Love Dervinger.

FYRSTU tónleikarnir voru helgaðir verkum Mozarts. Þau voru Adagio og fúga fyrir strengjakvintett (kvartett og kontrabassa), Dúó fyrir fiðlu og víólu í G og Píanókvartett í Es-dur KV493.

Adagio og fúga er sérkennilegt verk og langt frá því að vera dæmigerður Mozart. Að bæta kontrabassa við hefðbundinn strengjakvartett, án þess að kontrabassinn gegni sérstöku lagrænu eða hljómrænu hlutverki, öðru en því að gera varla meira en að tvöfalda sellólínuna er það sérkennilegasta. Það þyngir verkið og gerir botn þess voldugri og hljómmeiri en ella væri. Einhver hlýtur tilgangur Mozarts að hafa verið með því. Adagioið er sérstaklega tregafullt og grunnstef þess sárt og þar fær bassinn stundum að leiða hópinn. Þunga og alvarleika af þessu tagi má vissulega finna í fleiri verkum Mozarts, en einhvern veginn gerir þessi kontrabassaviðbót sig hálfundarlega. Úrvinnsla Mozarts á fúgustefinu nær heldur ekki því flugi sem fyrirrennarar hans í fúgulistinni náðu - og þótt hann spreyti sig á ýmsum kúnstum, eins og að spegla stefið, er úrvinnslan frekar einhæf. Þetta var ekki gott verk til að byrja tónleikana á; fyrst og fremst vegna galla verksins sjálfs. Það fór hins vegar ekkert á milli mála að hér var maður dottinn í lukkupottinn hvað músíkalska upplifun snertir, því hópurinn lék verkið firna vel.

Dúó fyrir fiðlu og víólu var hins vegar sannarlega sá Mozart sem allir elska og dá; frábært verk og snilldarlega leikið af þeim Auði Hafsteinsdóttur og Þórunni Ósk Marinósdóttur. Hlýr tónn, léttleiki og mýkt einkenndu túlkunina. Smáatriði eins og punktering í aðalstefi rondóþáttarins var listilega og músíkalskt leikin af Auði; og dæmigerð fyrir framúrskarandi leik þeirra í verkinu.

Píanókvartett í Es-dúr var lokaverk tónleikanna. Þar er píanóið í leiðandi hlutverki. Annar þátturinn er hreint meistaraverk af Mozarts hálfu; upphafsstefið leitandi og spyrjandi. Í úrvinnslukafla útfærir Mozart stefið snilldarlega; færir lokatón þess upp um tón til að koma hlustandanum í opna skjöldu, og hliðrar því til á allan þann hátt sem hann þarf til að þjóna músíkalskri framvindu. Í lokaþættinum er píanóið enn leiðandi. Það er ekki hægt annað en að lofa flutning þessa verks. Sif Tulinius, Þórunn Ósk og Bryndís Halla léku með Steinunni Birnu við píanóið. Hver þáttur var fallega upp byggður og hendingamótun innilega músíkölsk.

Það hefði gjarnan mátt víxla fyrstu tveimur verkunum á efnisskránni; til að byrja tónleikana með meiri bravúr; en annað er ekki hægt að finna þeim til hnjóðs.

UM leið og finnski baritónsöngvarinn Petteri Salomaa heyrist tala, - vaknar grunur um að hafi maðurinn á annað borð snefil af músíkgáfu, - þá hljóti hann að vera stórkostlegur söngvari. Þessi grunur reyndist blessunarlega réttur; hljómmikil rödd hans ákaflega falleg og músíkin til staðar. Á tónleikum þeirra Steinunnar Birnu á laugardag gat að heyra ljóðasöngva eftir Schubert og Wolf og svo úrval finnskra sönglaga, - bæði eftir Sibelius og svo minna þekkt tónskáld, gömul og ný. Það er gríðarlegur fengur fyrir okkur hér að fá að heyra í listamanni sem Petteri Salomaa er, og sárt að ekki skyldu fleiri söngvarar láta sjá sig.

Lög Schuberts voru yndislega flutt - en hæst bar Krossferðina við ljóð eftir Leitner, þar sem Petteri og Steinunn Birna lituðu músíkina sterkum dramatískum litum, ekki síst þar sem sem sögumanni ljóðsins sleppir og frásögnin er lögð í munn munksins sem horfir á pílagrímana ganga hjá. Það bókstaflega dimmdi í túlkun þeirra á þessum dimma og viðkvæma stað í ljóðinu. Mestur fengur fyrir ljóðelska var að heyra finnsk sönglög frá síðustu öld - eftir tónskáld eins og Erik Bergmann (sem fékk tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 1994 fyrir óperu sína Det sjungande trädet - Syngjandi tréð), Sebastian Fagerlund og Eero Hämeenniemi. Serenaða Bergmans var glimrandi flott verk - nánast eins og resitatív eða söngles - minnti jafnvel á Jórunni Viðar, Únglinginn í skóginum. Þjóðlag við ástarljóð í útsetningu Hämeenniemis, var sérstaklega fallegt á finnskri tungu, og eftirspil Steinunnar Birnu á píanóið mjúkt og blítt í anda ljóðsins.

Lög Wolfs voru hvert öðru betra í flutningi dúósins, en síðasti skammtur finnskra laga - lög eftir Sibelius og samtímamenn hans var rismikill hápunktur tónleikanna. Lag Palmgrens, Virran reunalla, um stúlku sem situr við fljót og hugsar um ástina, var óskaplega fallegt í túlkun Petteris Salomaa - og sindrandi árniðurinn í hægri hönd Steinunnar Birnu hrífandi. Ástarljóð við lag eftir Kuula, um piltinn sem felur ástarsorgina með því að syngja - svo allir haldi hann hamingjusaman - var geysivel flutt. Lög Sibeliusar voru bæði þekkt og minna þekkt - topparnir þar Svartar rósir, með mikilli dramatík í túlkun og Demanturinn í marssnjónum, sem er eitt besta lag tónskáldsins. Það bar allt að sama brunni á þessum indælu tónleikum; - listræn nautn og gríðarleg stemmning í troðfullri kirkjunni.

KAMMERTÓNLEIKAR á laugardagskvöldi voru hlaðnir því sem margir kalla konfektmola - þar sem leikið var úrval þekktra smáverka. Gestur þeirra tónleika var Love Dervinger og mikil eftirvænting að heyra í honum. Hann spilaði annars vegar prelúdíur eftir Debussy, en hins vegar úr prelúdíum op. 28 eftir Chopin. Það voru nokkur vonbrigði að heyra Debussy, það var eins og Love Dervinger væri lengi í gang, og ekki fyrr en í La puerta del vino með súrrandi habañerurytma að hann komst á flug. Debussy var í heild of daufur og litlaus hjá honum fyrir utan þetta verk, og þótt verkin beri almennt í sér fljótandi þokka impressjónismans verða þau að hafa meira svipmót og karakter. Það var því enn meira gaman að heyra hann spila Chopin-prelúdíurnar. Þær voru geysilega vel leiknar, og sumar hverjar svo að eftir verður munað. Litla prelúdían nr. 4 - örfáir taktar af hreinni músíkalskri snilld tónskáldsins - þar gerði Love hvorki of né van og skilaði þessum mola sem næst fullkomlega. Annað á tónleikunum var bæði gott og vel flutt, sérstaklega var þó dirfskan í flutningi Auðar og Bryndísar Höllu á Passacagliu Händels, kryddaðri rómantískri útsetningu Johans Halvorsens skemmtileg. Mýkt Hávarðar í sónötu eftir Eccles var hreint ótrúlega falleg - það var eins og hann væri með fiðlu í höndunum en ekki kontrabassa og Bach í höndum Þórunnar Óskar var hreinn og tær.

UPPISTAÐA lokatónleikanna voru tvö verk - Píanótríó op. 9 eftir Rakhmaninov og Silungakvintettinn eftir Schubert. Inngangsverkið var Vókalísa Rakhmanonivs.

Leikur Auðar, Bryndísar Höllu og Loves í Rakhmaninov var hreint með ólíkindum. Einbeiting hljóðfæraleikaranna var rafmögnuð og hljóðfæraleikurinn á ystu nöf í músíkölskum skilningi - þar sem allt var lagt í sölurnar til að skapa einsktaka músíkupplifun.

Silungakvintett Schuberts var leikinn með því móti sem maður heyrir allt of sjaldan. Þetta verk má ekki taka of alvarlega, eða túlka með of miklum þyngslum. Kontrabassinn gefur því líka svipmót divertimentos - eða skemmtitónlistar - og músíkefni Schuberts býður einmitt upp á léttleika og gleði. Tónn Sifjar á fiðluna er líka svo fínlegur og fágaður og ber vel uppi fyrstu fiðlu í þess konar túlkun verksins. Umfram allt var flutningur verksins yndisleg skemmtun, og spilagleði hljóðfæraleikaranna bókstaflega smitandi. Þetta var frábært niðurlag á góðum tónleikum og enn einni afbragðs tónlistarhátíðinni í Reykholti.

Bergþóra Jónsdóttir

Samstarfsaðilar - Affiliates:
menntamalaraduneytid snorrastofa soknaraaetlun_vesturlands

 


Sígild tónlist í sögulegu umhverfi - Classical Music in Historical Surroundings